Frá vettvangi á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ.
25 Júlí 2016 11:34

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. júlí.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 18. júlí. Kl. 8.49 hjólaði hjólreiðamaður vestur Laugalæk og beygði suður Hrísateig þar sem hann lenti aftan á mannlausri bifreið. Hjólreiðmaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.05 varð árekstur með bifreið, sem ekið var af afrein frá Bæjarhálsi inn á Höfðabakka til vesturs, og bifreið, sem ekið var vestur götuna. Ökumaður og farþegi síðarnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 19. júlí kl. 20.13 féll hjólreiðamaður af hjólinu þar sem hann hafði hjólað norður Holtaveg og beygt áleiðis austur Skútuvog. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 20. júlí kl. 19.03 var bifreið ekið út af Suðurlandsvegi í Lögbergsbrekku á leið til austurs. Ökumaðurinn, sem hafði verið að tala í farsíma, veitti allt í einu athygli flutningabifreið ekið hægt fyrir framan og ákvað því að beygja frá á síðustu stundu með framangreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. júlí. Kl. 9.56 var rafmagnsvespu ekið suður gangstétt austan Laugarnesvegar og á afturhlið bifreiðar, sem ekið var afturábak út úr heimkeyrslu við götuna. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.02 var bifreið ekið yfir rist á gangandi vegfaranda við Suðurlandsbraut 14. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 22. júlí. Kl. 8.54 féll stúlka af reiðhjóli í Löngumýri eftir að geitungur hafði stungið hana í vörina. Stúlkan var flutt á slysadeild. Og kl. 14.29 var vörubifreið með krana ekið suður Vesturlandsveg. Þegar bifreiðinni var ekið undir göngubrú yfir veginn milli Álafosskvosar og Þverholts rakst kraninn upp undir brúna með þeim afleiðingum að bifreiðin brotnaði í miðju. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 23. júlí. Kl. 14.13 varð árekstur með bifreiðum á gatnamótum Stekkjarbakka við Aktu Taktu þar sem einni bifreið var beygt í veg fyrir aðra. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 14.40 féll stúlka af reiðhjóli á Breiðholtsbraut á móts við Ögurhvarf. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 16.58 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Háaleitisbraut, og bifreið, sem ekið var ekið suður Kringlumýrarbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 18.10 varð árekstur með tveimur bifreiðum á Suðurbraut við Strandgötu. Annar ökumannanna var í æfingarakstri þegar óhappið varð. Hinn ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.36 var bifreiðum ekið norður Álftanesveg. Þegar aftari bifreiðinni var ekið áleiðis frammúr þeirri fremri var henni beygt til vinstri skammt frá hringtorginu gegnt Bessastöðum með þeim afleiðingum að bílarnir rákust saman. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ.