2 September 2015 14:26

Þann 1. september sl. hófu 16 nýnemar nám á við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins. Nám við grunnnámsdeildina skiptist í bóknám og starfsnám, heildarlengd námsins skal vera að lágmarki tólf mánuðir og þar af skulu a.m.k. fjórir mánuðir vera starfsnám hjá lögreglunni. Lögregluskóli ríkisins greiðir nemendum mánaðarlaun í starfsnámi þeirra en viðkomandi lögreglustjóri vaktaálag og annan kostnað sem til fellur. Bóknámið er ólaunað.

Af þessum nýnemum hafa 10 starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá þremur mánuðum til tæplega 20 mánaða. Meðalaldur nýnemanna er 25,5, í hópum eru 11 karlar (68,25%) og 5 konur (31,25%).

Menntun innan hópsins er margvísleg og nýnemarnir hafa t.d. stundað nám, um skemmri eða lengri tíma, í félagsráðgjöf, knattspyrnuþjálfun, félagsfræði, afbrotafræði, lögfræði, íþrótta- og heilsufræði, sálfræði, ensku, rafiðn, jarðfræði, húsgagnasmíði og húsasmíði. Þá eru í hópnum einstaklingar sem hafa lokið námi sem veitir þeim réttindi sem einkaflugmaður, vélstjóri, kafari, fangavörður, sjúkraflutningamaður og slökkviliðsmaður.

14 nýnemanna hafa lokið stúdentsprófi, sjö hafa lokið BA eða BSc háskólanámi og tveir þeirra hafa að auki lokið meistaranámi. Í hópnum er einn húsasmíðameistari.

Starfsreynsla nýnemanna er af ýmsum toga og sem dæmi má nefna að þeir hafa starfað við þjálfun í líkamsrækt, körfuknattleik, knattspyrnu og handknattleik; umönnun fatlaðra og geðsjúkra; sundlaugarvörslu; stundakennslu í grunnskóla; sölumennsku; akstur sendi- og leigubifreiða; leiðsögumennsku; búmennsku; fangavörslu og hestatamningar.

Meðal þess sem nýnemarnir hafa sem áhugamál eru golf, tónlist, hjólreiðar, skotveiði, hestamennska, líkamsrækt, lestur, matreiðsla, garðrækt, stangveiði, köfun, ferðalög, hundaþjálfun og matreiðsla.