16 Febrúar 2017 16:00

Grænlenskur karlmaður á þrítugsaldri var í dag í héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til tveggja vikna á grundvelli rannsóknarhagsmuna í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á dauða Birnu Brjánsdóttur. Maðurinn var handtekinn um borð í fiskiskipinu Polar Nanoq 18. janúar og úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald daginn eftir, sem nú hefur verið framlengt öðru sinni. Hann hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Mál Birnu Brjánsdóttur hefur verið í algjörum forgangi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hafa fjölmargir komið að rannsókn þess, en þegar mest var unnu nokkrir tugir starfsmanna embættisins að málinu. Rannsókninni hefur miðað vel, en enn er beðið lokaniðurstöðu krufningar og lífsýnarannsókna. Ekki hafa borist nýjar upplýsingar um ferðir rauða Kia Rio bílsins laugardagsmorguninn 14. janúar frá kl. 7 – 11.30.