6 Nóvember 2017 10:51

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um helgina var ekkert í alltof góðum málum. Hann dró aðra bifreið með dráttartaug og mældist hann aka á 103 km hraða á Reykjanesbraut. Lögreglumenn gerðu honum grein fyrir því að hámarkshraði væri 30 km á klukkustund þegar verið væri að draga bíl með þessum hætti, þannig að hann var sumsé á rúmlega þreföldum leyfilegum hámarkshraða. Þá var bíllinn sem hann dró ljóslaus að aftan.

Nokkrir ökumenn til viðbótar voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 157 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

Loks var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og annar vegna gruns um fíkniefnaakstur. Sá síðarnefndi viðurkenndi neyslu fíkniefna. Hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum ævilangt.