Þetta er sannarlega góð og þörf spurning. Þannig er að á lögreglu hvílir ekki kæruskylda, s.s ef lögregla verður vitni að brotum er það ekki skylda hennar að kæra. Ef til vill hljómar þetta örlítið skringilega en slíkt gerir lögreglu kleift að meta aðstæður betur og meta aðgerðir eftir því. Þetta gerir það að verkum að stundum stöðvar lögregla ökumenn og ræðir við þá í stað þess að sekta, einfaldlega vegna þess að stundum virkar betur að spjalla en að sekta.

Lögreglan er fagstétt sem þarf að meta margt þegar að aðgerðum kemur. Til að mynda gæti það skapað mikla hættu að fara á eftir bíl sem fer yfir á rauðu ljósi á háannatíma á stórum gatnamótum. Gott er að ímynda sér hvernig stór gatnamót eru og hvað margir bílar þurfa að nema staðar með litlum fyrirvara til að lögreglan komist þar yfir með forgangsljósum. Almennt má segja að lögreglumenn séu hvergi í meiri hættu að lenda í slysi en á slíkum stundum auk þess sem aðrir vegfarendur séu einnig lagðir í hættu. Þannig verður lögreglan að meta hvort það sé ásættanlegt að leggja marga í hættu með slíkum aðgerðum, til þess eins að stoppa ökutæki á háannatíma með tilheyrandi töfum fyrir aðra umferð.

Í öðru lagi er allt eins líklegt að lögreglumenn geti verið með einstakling í lögreglubifreiðinni á leið til eða frá vettvangi, mögulega handtekinn aðila. Þá er ekki farið í að sinna umferðarverkefum, enda önnur brýnni verkefni í gangi.

Í þriðja lagi er allt eins líklegt að þeir hafi hreinlega verið á leið í verkefni. Þá kunna margir að spyrja: Er ekki bara allt í lagi að stoppa einn bíl á leið í verkefni? Jú, það getur verið það – en stundum breytast einföld verkefni yfir í að vera ansi flókin verkefni og þá er okkar fólk bundið í þeim. Þannig er það að okkar fólk þarf oft að komast hratt á vettvang, þótt að ekki sé þörf á að fara með forgangi.

Posted in: Lögreglan