20 Apríl 2018 15:19

Karlmaður á fertugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í fjögurra vikna farbannn, eða til 18. maí, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á umfangsmiklu fíkniefnamáli. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu embættisins um tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna, en gæsluvarðhald yfir manninum rann út í dag. Hann var handtekinn í janúar og hafði því verið í haldi lögreglu í tólf vikur. Rannsókn málsins, sem er á lokastigi og er m.a. unnin í samvinnu við spænsk yfirvöld, hefur verið tímafrek, en enn er beðið gagna erlendis frá. Sú gagnaöflun felur þó ekki í sér brýna rannsóknarhagsmuni.

Í málum sem þessum, þar sem sakborningur sætir gæsluvarðhaldi, er horft til þess að fullnægjandi rannsókn lögreglu sé lokið á tólf vikum. Það hefur ekki gengið eftir og ákæra hefur ekki verið gefin út. Tafir á rannsókn málsins mega teljast eðlilegar, m.a. vegna umfangs þess.