6 Júní 2016 14:08

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í liðinni viku og um helgina í tenglsum við hátíðarhöld Sjómannadags. Skemmtana hald helgarinnar fór fram með ágætum og lítið um að lögregla hafi þurft að hafa afskipti af gestum öldurhúsanna.   Eitthvað var þó um að lögreglan þurfti að aðstoða fólk sökum ölvunarástands þess en annars fóru hátíðarhöld Sjómannadagsins fram með ágætum.

Tveir þjófnaðir, ein eignaspjöll og einn nytjastuldur voru tilkynnt til lögreglunnar í liðinni viku en um var að ræða sama aðila í öll skiptin. Hafði þessi aðili m.a. skemmt söfnunarkassa í Stafkirkjunni og stolið þaðan peningum.  Þá hafði hann farið inn í bifreið og stolið þaðan jakka sem í var peningur.  Aðili þessi var síðan staðin að því að taka gúmmibát ófrjálsri hendi.  Hann viðurkennti brotin og skilaði því sem hann stal.  Málin teljast að mestu upplýst.

Alls liggja fyrir níu kærur vegna brota á umferðarlögum en í fjórum tilvikum var um vanrækslu á að nota öryggisbelti við akstur, í jafnmörgum tilvikum var um ólöglega langingu ökutækja að ræða og í einu tilviki var um að ræða sekt vegna aksturs á negldum hjólbörðum.

Lögreglan vill minna á að núna á miðvikudaginn 8. júní til og með 11. júní nk. verður haldið TM mót ÍBV ( Pæjumótið ) og eru ökumenn, í tilefni þess, hvattir til að aka varlega í kringum knattspyrnuvelli bæjarins, enda fjölgar gangandi vegfarendum töluvert í tengslum við mótið. Þá eru gangandi vegfarendur jafnframt hvattir til að fara varlega í umferðinni, nota gangbrautir og líta til beggja hliða áður en farið er út á götu.