5 September 2016 15:49

Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinni viku án þess þó að alvarleg mál hafi komið upp. Skemmtanahald helgarinnar gekk með ágætum þrátt fyrir að fjöldi fólks hafi verið að skemmta sér enda fjöldi árgangsmóta á dagskrá.   Eitthvað var um stympingar í kringum öldurhúsin en engin kæra hefur verið lögð fram.

Síðdegis þann 1. september sl. var lögreglu tilkynnt um nytjastuld á léttu bifhjóli en sá sem stal hjólinu hafði skilað því aftur þar sem hann tók það eftir að hafa ekið á því um bæinn. Kvaðst sá sem tók hjólið hafa fundið það og ákveðið að taka það. Hjólið er óskemmt.

Undir kvöld þann 3. september sl. var lögreglu tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við hús á Hásteinsvegi. Þegar kannað var með málið kom í ljós að farið hafði verið inn og þaðan stolið áfengi.  Sá sem þarna var á ferð fannst skömmu síðar ásamt þremur öðrum á svipuðu reki og viðurkenndi hann að hafa brotist inn í húsið.  Var þarna um þann sama að ræða og tók léttbifhjólið nokkrum dögum áður.

Alls liggja fyrir fjórar kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna og er í tveimur tilvikum um að ræða vanrækslu á að nota öryggisbeldi í akstri, einu tilviki akstur án ökuréttinda og í einu tilvik var sektað fyrir ólöglega lagningu ökutækis.

Um hádegi þann 3. september sl. urðu bæjarbúar varir við að skotið var upp skoteldum í skriðunni sunnan í Hánni en þarna var um að ræða ræsingu Vestmannaeyjahlaupsins. Aðstandendum hlaupsins hafði láðst að fá leyfi fyrir að skjóta skoteldunum og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.

Eitt vinnuslys var tilkynnt lögreglu í vikunni sem leið en þarna hafði starfsmaður í Vinnslustöðinni slasast við vinnu sína við færiband. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl starfsmannsins eru.