8 Nóvember 2016 13:45

Lögreglan í Vestmannaeyjum hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Helgin gekk ágætlega fyrir sig en eitthvað var þó um pústra án þess að kærur liggi fyrir.  Þá var eitthvað um það að lögreglan hjálpaði fólki til síns heima sem sökum ölvunarástands gat ekki bjargað sér sjálft.

Að kvöldi 3. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um að brotist hafi verið inn á lager verslunarinnar Vöruvals og að tveir menn væru þar fyrir utan. Er lögreglan kom á staðinn hljóp annar mannanna í burtu en hinn var handtekinn á staðnum og var í framhaldi af því vistaður í fangageymslu.  Hinn maðurinn var handtekinn daginn eftir og við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndu þeir innbrotið og báru fyrir sig dómgreindarleysi sökum áfengisneyslu.  Hurð sem var fyrir lagernum skemmdist í innbrotinu ásamt hluta af vörum sem mennirnir voru búnir að tína til.   Málið telst að mestu upplýst.

Að morgni 3. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys á athafnarsvæði Eimskips en þarna hafði maður sem var að vinna á lyftara slasast á hendi. Þarna var verið að vinna við að setja fiskikör í gámavagn og var lyftaranum ekið inn í vagnin til að koma körunum fyrir.  Er lyftarinn var inni í gámnum gaf annar fótur gámavagnsins sig þannig að vagninn skall niður og rann lyftarinn þá út um aðra hlið vagnsins og lenti á hliðinni.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni en þarna var um minniháttar óhapp að ræða og engin slys á fólki.

Þrjár kærur vegna brota á umferðarlögum liggja eftir liðna viku en um er að ræða kærur vegna vanrækslu á að nota öryggisbelti í akstri, notkun farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar og ólöglega lagningu ökutækis.