4 Ágúst 2016 10:34

Í liðinni viku voru 31 kærðir fyrir að aka ölvaðir í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurlandi. Flestir þeirra, eða 18 talsins voru stöðvaðir á frídegi verslunarmanna á leið sinni frá þjóðhátíð í Vestmanneyjum.  Lögreglumenn vöru með stöðuga vakt í Landeyjahöfn þar sem ökumönnum var boðið að blása í öndunarsýnamæli áður ein þeir héldu af stað inn í þjóðvegaumferðina.   Mjög margir nýttu sér þessa þjónustu en einhverjir misreiknuðu sig og töldu ekki þörf á slíku og óku af stað án þess að blása en voru stöðvaðir á eftirlitspósti á veginum frá Landeyjahöfn og í framhaldi af því færðir til töku blóðprufu.     Þá voru 8 kærðir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiðar  í vikunni.

Allmörg umferðarslys urðu í liðinni viku. Þann 28. júlí s.l. á Dyrhólavegi, skammt frá Garðakoti, ók ferðamaður frá vegarbrún og inn á veg í veg fyrir umferð sem á eftir kom þannig að árekstur varð með bifreiðunum.  Einn kvartaði undan meiðslum en ætlaði sjálfur að leita á slysadeild.  Sama dag varð eldri kona fyrir bíl þar sem hún gekk á gangbraut yfir Austurveg á Selfossi.  Hún var flutt á sjúkrahús á Selfossi en er ekki alvarlega slösuð. Eftir miðjan dag á sunnudag, 31. júlí var bifreið ekið út frá Hafnarbrú á Eyrarbakka og í veg fyrir bifhjól sem ekið var eftir Eyrarbakkavegi.   Ökumaður bifhjólsins var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús í Reykjavík en meiðsl hans reyndust hinsvegar minniháttar.    Aðfaranótt 1. ágúst valt bifreið, með tveimur ungum piltum, margar veltur á Þórsmerkurvegi.   Þeir voru fluttir með þyrlu LHG til Reykjavíkur, annar þeirra meðvitundarlaus en einnig í því tilfelli reyndust meiðsl minniháttar.

56 voru kærðir fyrir að aka of hratt. Af þeim voru 19 kærðir í sérstöku eftirliti sem sett hefur verið upp í Öræfum eða á svæðinu frá Lómagnúp að Höfn.   Þar er nú lögreglubíll flesta daga meðan mesti þunginn er í umferðinni og áhersla  lögð á sýnilega löggæslu og eftirlit með umferð enda hafa umferðarslys verið tíð á þessum slóðum.    Á sama hátt er nú sérstaklega settur lögreglubíll í uppsveitir Árnessýslu til að sinna umferðareftirliti.   Þar er sömuleiðis lögð áhersla á sýnilegt eftirlit og afskipti af umferðinni.

Framundan er áframhaldandi hálendiseftirlit en bilun í drifbúnaði sérbúins lögreglubíls varð til þess að því var ekki sinnt í liðinni viku. Búið er að gera við og því ekkert að vanbúnaði að fara til fjalla á ný.

Verslunarmannahelgin gekk vel fyrir sig að mestu leiti þó fjöldi ölvaðra ökumanna skyggi nokkuð á í þeim efnum. 7 gistu fangageymslur á Selfossi vegna ölvunarástands án þess þó að brot þeirra væru alvarleg.  Mikill erill var í kring um viðburði á Flúðum en eins og svo oft áður þá beindist þörfin fyrir löggæslu ekki síður að fulltíða einstaklingum sem þar voru á meðan yngri kynslóðin skemmti sér vel.   Í gær funduðu fulltrúar þeirra sem komu að gæslu og sjúkragæslu með sveitarstjóra þar sem farið var yfir reynslu helgarinnar og verður niðurstaða þess fundar veganesti inn í framtíðina þegar kemur að skipulagi í kring um komandi verslunarmannahelgar.