6 Júní 2016 09:04

Mikill erill hefur verið hjá lögregumönnum á Suðurlandi í síðustu viku sem komu að 358 verkefnum og er talsverð aukning frá því sem verið hefur undanfarið.

Karl og kona voru handtekin á Suðurlandsvegi í Ölfusi seint á laugardagskvöld á leið þeirra í bifreið sem konan ók.  Konan bar merki þess að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.  Í ljós kom að hún var ekki með ökuréttindi. Hún hafði verið svipt þeim.  Í bifreiðinni voru ýmsir munir sem grunur lék á að væri þýfi.  Parið var yfirheyrt í gær.  Konan gekkst við sviptinga- og fíkniefnaakstrinum.  Hins vegar neituðu bæði þjófnaði á þeim munum sem voru í bílnum en gátu ekki gert grein fyrir þeim.  Þar ræðir um, meðal annars, fartölvur, sláttuvél, gasgrill og flatskjár.  Munirnir voru haldlagðir og eru í geymslu í lögreglustöðinni á Selfossi.  Sakni einhver slíkra muna þá er hægt að leita upplýsinga hjá lögreglu í síma 444 2010.

Lögreglumenn á Höfn í Hornafirði fóru á fimmtudag á flugvöllinn og haldlögðu pakka sem kom með flugvél frá Reykjavík. Grunur lék á um að í pakkanum væru fíkniefni sem reyndist á rökum reist.  Skömmu síðar kom maður til að sækja pakkann.  Hann var handtekinn og bar því við að hann hefði verið sendur af öðrum manni til að sækja pakkann.  Sá maður var handtekinn og færður til yfirheyrslu.  Í pakkanum var amfetamín og kannabis, ekki í miklu magni, sem maðurinn viðurkenndi að eiga og hafi einungis verið ætlað til eigin neyslu.  Efnin verða send til vigtunar og rannsóknar.

Karlmaður kom í lögreglustöðina á Selfossi síðdegis á laugardag og kærði annan fyrir líkamsárás. Árásarþolinn hafði ætlað að ráða hinn í vinnu.  Þeim sinnaðist í viðræðum sínum með þeim afleiðingum að sá sem hugðist ráða sig í vinnuna réðist á hinn með hnefahöggum sem leiddi til tannbrots.  Atvikið átti sér stað í Hveragerði.  Málið er í rannsókn.

Lögreglumenn á Suðurlandi voru kallaðir til vegna 18 umferðaróhappa og slysa í liðinni viku. Alvarlegast var bílvelta í Reynisfjalli þar sem fjórir bandarískir ferðamenn voru á leið upp fjallið í ársgömlum Pajero jeppa.  Á miðri leið snérist þeim hugur og ökumaðurinn bjó sig undir  að snúa við.  Það gekk brösulega og leist farþegum ekki meira en svo á að þeir yfirgáfu jeppann á meðan ökumaðurinn lyki við að snúa við.  Ekki tókst betur til en svo að bifreiðin fór aftur á bak útaf veginum og valt margar veltur niður hlíðina og stöðvaðist á hvolfi ofan í skurði.  Ökumaðurinn kastaðist út úr bílnum á miðri leið.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til og flutti manninn á Slysadeild Landspítala.  Við skoðun þar kom í ljós að maðurinn var með eitt brotið rifbein sem verður að tlejast farsællega vel sloppið miðað við aðstæður.

Ungur karlmaður var handtekinn í síðustu viku í Vík í Mýrdal grunaður um að hafa brotist inn í bifreið sem stóð skammt frá Víkurskála og stolið úr honum munum. Við eftirgrennslan í þorpinu fannst hann á akstri.  Maðurinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu.  Hann játaði þjófnaðinn auk þess að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna.

Aðfaranótt miðvikudags var bifreið stolið á Selfossi. Bifreiðin fannst óskemmd í Reykjavík á laugardag.  Óupplýst er hver tók bifreiðna.

Nokkrir lítrar af landa og bruggtæki voru gerð upptæk á Flúðum á fimmtudag. Lögreglu höfðu borist upplýsingar um landann.  Karlmaður játaði að eiga landann og tólin.  Hann verður kærður fyrir verknaðinn.

Eitthundrað og fjórtán ökumenn voru í vikunni kærðir fyrir umferðarlagabrot. Þar af voru 88 kærðir fyrir hraðakstur, fjórir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, einn fyrir ölvunarakstur og umferðardeildarlögreglumenn voru í eftirliti með öxulþunga, ökuritum, hvíldartíma ökumanna og ýmsum öðru sem snýr að umferðinni.