2 Apríl 2018 01:35

Lögreglan á Austurlandi hefur gefið umferðarmálum aukin gaum á síðustu vikum á starfssvæði sínu. Á tímabilinu 7.mars til 1.apríl hafa 62 ökumenn verið sektaðir vegna hraðaksturs ásamt því að sektað hefur verið fyrir brot á stöðvunarskyldu, skorts á bílbeltanotkun og lagningar ökutækja. Vill lögregla brýna fyrir ökumönnum að fylgja umferðarreglum þannig að öryggi gangandi og akandi vegfarenda sé sem mest.

Þá var einn ökumaður handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur og tveir ökumenn teknir fyrir akstur án ökuréttinda. Í öðru því tilfelli var ökutæki haldlagt vegna endurtekinna brota ökumanns. Þá voru skráningarnúmer tveggja ökutækja fjarlægð vegna skoðunarskyldu og vátrygginga.

Þá hefur nokkuð verið um umferðarslys í umdæminu þessa daga án teljandi meiðsla ökumanna og farþega þó.

Þrátt fyrir að vorið sé aðeins farið að minna á sig á stöku dögum hefur ófærð komið við sögu hjá lögreglu og nokkuð um aðstoð við ökumenn vegna þessa. Þá þurfti að rýma tvo reiti í byggð á Seyðisfirði þann 14.mars síðastliðinn vegna ofanflóðahættu.

Þá voru ýmis önnur verkefni sem komu inn á borð lögreglu og 420 bókanir á þessu tímabili af ýmsum toga. Þar á meðal hvalreki við Vattarnes í Fáskrúðsfirði þar sem rak dauða Andanefju á land. Var leyst úr því máli í samstarfi við tilheyrandi eftirlitsstofnanir og björgunarsveitina Geisla sem kom að því að flytja hana til þannig að hægt væri að urða hræið.

Einnig hafa fíkniefnamál komið til kasta lögreglu og viljum við minna almenning á að alltaf er hægt að koma upplýsingum um slík mál til lögreglu nafnlaust og er fyllsta trúnaðar gætt vegna þessa.