8 Febrúar 2018 13:39

Fjöldi mála lögreglunnar á Austurlandi er 224 á þessu tímabili. 10 umferðarhöpp voru tilkynnt til lögreglu. Bílvelta varð á Hringvegi  skammt frá bænum Hrólfsstöðum á Jökudal. Farþegi bifreiðarinnar var fluttur með sjúkrabíl á heilsugæslustöðina á Egilsstöðum til aðhlynningar. Meiðsli reyndust minniháttar. Þá varð umferðarslys á Skriðdalsvegi þar sem aðstæður voru mjög varasamar, fljúgandi hálka og hávaðavindur. Slysið var með þeim hætti að tvær bifreiðar mættust og var önnur þeirra með kerru í afturdragi. Vindhviða feykti kerrunni yfir á rangan vegarhelming og skall kerran framan á bifreiðinni sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar meiddist lítillega á hendi. Bílvelta varð á Upphérðasvegi en veruleg hálka var á umræddum vegarkafla. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin er talin ónýt.

Umferðarslys varð á gatnamótum Ásvegar og Sæbergs í Breiðdalshreppi en ökumaður annarar bifreiðarinnar virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir bifreið sem var ekið vestur Ásveg. Ökumaðurinn taldi sig hafa blindast  af sólinni og ekki tekið eftir hinni bifreiðinni. Ökumaður og farþegi leituðu til læknis eftir slysið og reyndist um  minniháttar meiðsli að ræða. Báðar bifreiðarnar er mikið skemmdar.

Einn ökumaður var kærður á Egilsstöðum fyrir að aka bifreið án þess að hafa öðlast ökuréttindi en aðilinn er jafnframt sviptur ökuréttindum ævilangt.

Þrír aðilar voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu og einn ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkninefna. Þá var einn ökumaður kærður fyrir að aka með of háan farm um Fáskrúðsfjarðargöng en hann ók á hæðarslána framan við umrædd göng Reyðarfjarðarmegin.