21 Nóvember 2016 10:29

Í liðinni viku voru 3 ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra er talin undir áhrifum kannabis og kókaíns, annar, drengur á átjánda aldursári, sem mældur var á 113 km/klst hraða á 90 km/klst kafla, gaf jákvæða svörum við kannabis og amfetamíni og reyndist við athugun vera með neysluskammt af maríhuana í sokk.  Með honum í bílnum var ölvaður faðir hans. Sá þriðiji gaf jákvæða svörun við amfetamíni.  Sá var á ótryggðum bíl í umferðinni.

3 ökumenn voru handteknir grunaðir um ölvun við akstur í vikunni.   Einn var stöðvaður skammt austan við Þjórsá með ljóslausa hestakerru í eftirdragi.  Annar var handtekinn af lögreglumanni á frívakt eftir að hafa ekið á brúarhandrið á Suðurlandsvegi við Áshól og sá þriðji ók bifreið sinni framan á bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt á Suðurlandsvegi við Kotströnd.  Mikið tjón varð þar á ökutækjum en einungis minniháttar meiðsl á fólki.

Númer voru tekin af 8 ökutækjum vegna þess að tryggingar þeirra reyndust ekki vera í gildi. Eins og áður hefur komið fram hér eru skráningarnúmer þessara ökutækja fjarlægð án fyrirvara þar sem til þeirra næst og situr viðkomandi gjarnan uppi á næsta bílastæði vegalaus og með sekt upp á 30 þúsund krónur fyrir að nota bifreiðina án þess að lögboðnar tryggingar hafi verið í gildi.

Ökumaður fólksbifreiðar slasaðist þegar bifreið hans fór útaf vegi í hálku og valt á Sólheimavegi við Brjánsstaði þann 17. nóvember s.l. Meiðsl viðkomandi eru þó ekki talin alvarleg.  Erlendur ferðamaður slasaðist á höfði þegar hann datt í hálku við Geysi í Haukadal þann 19. nóvember s.l. Þá slasaðist annar erlendur ferðamaður á höfði þegar hann datt við heitan pott við Brúarholt þann 15. nóvember s.l.  Í hvorugu tilfellana eru meiðsl talin alvarleg.

Karlmaður á sjötugsaldri var fluttur með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík s.l. fimmtudagskvöld eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás af hendi fulltíða sonar síns á heimili þeirra á Höfn. Hann er með mikla áverka á höfði en þó ekki talinn í lífshættu.  Sonurinn reyndist eiga óafplánaða fangelsisrefsingu og var á föstudeginum fluttur til afplánunar í fangelsið að Litla-Hrauni.

27 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í vikunni og eru nú fjöldi kærðra ökumanna það sem af er árs orðinn 2077 og þar með meiri en varð á árunum 2015 þegar þeir voru 1990 alls og 2014 þegar þeir urðu 2066. Sem fyrr eru það að miklu leiti erlendir ferðamenn sem eiga í hlut en nú ber svo við að sumir þeirra sem stöðvaðir eru eru farnir að tala um að þeir hefðu mátt vita betur,  bílaleigan hafi bent þeim á að lagt sé upp úr eftirliti lögreglu á leið þeirra.  Það er vel enda fyrirliggjandi að ein helsta ástæða umferðaróhappa er of hraður akstur ökutækja sem í hlut eiga.  Ljóst er hinsvegar að ekki má draga úr sýnilegu eftirliti því að í sömu samtölum kemur fram að ferðamenn telja sýnileika lögreglu hafa áhrif á akstur sinn.