7 Nóvember 2016 11:20

42 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku.   Af þeim eru 26 erlendir ferðamenn og á franskur ferðalangur þann vafasama heiður að hafa ekið hraðast þeirra, eða með 143 km /klst hraða á Suðurlandsvegi til móts við Kálfholtsafleggjara en þar er leyfður hámarkshraði 90 km/klst.  Heildarfjárhæð álagðra sekta vegna þessara tilteknu brota erlendra ferðamanna nemur 1.475.000,- krónum og lang flestir þeirra greiða sekt sína á vettvangi og fá þannig 25% afslátt af fjárhæð hennar.  Sektir íslenskra hraðaksturskappa á sama tíma námu 910 þúsundum króna.  Íslendingar aka hægar en erlendu ferðamennirnir,  meðalsekt þeirra íslensku er um 37.000 krónur á meðan erlendi ferðamaðurinn greiðir 55.000 krónur v. sinna brota.

Skráningarmerki voru fjarlægð af 10 bifreiðum vegna þess að þær reyndust ótryggðar í umferðinni. Eigendur þeirra eiga von á 30.000 króna sekt fyrir að aka þeim án tryggingar.

Nú ber svo við að engin var tekinn grunaður um ölvun við akstur í vikunni og ekki voru höfð afskiti af ökumönnum grunuðum um akstur undir áhrifum fíkniefna.

11 sinnum var tilkynnt um lausa hesta innan bæjarmarka á Selfossi. Í flestum tilfellum reyndist um sömu uppsprettu þeirra að ræða og ljóst að eigandinn þarf að herða sig í viðhaldi girðinga sinna.

Erlend kona sem missteig sig og féll í stiga við Skógarfoss þann 21. október s.l. er talin fótbrotin og var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

Leiðsögumaður 9 erlendra ferðamanna féll í jökulsprungu á Svínafellsjókli þann 2. nóvember s.l.   Hann stöðvaðist á sillu skammt neðan við brúnina en er talinn hafa fótbrotnað.  Samferðamenn hans og samstarfsfélagar komu honum til hjálpar og undir hendur sjúkraliðs sem flutti hann til aðhlynningar á sjúkrahús.   Maðurinn var vel búinn en virðist ekki hafa gengið nægjanlega vel frá tryggingu á öryggislínu sinni.