18 Júlí 2016 10:32

Lögreglumenn stöðvuðu ökumann ferðaþjónustufyrirtækis á Suðurlandsvegi við Hvolsvöll á laugardagskvöld til að skoða búnað bifreiðarinnar. Bifreiðin dró kerru sem var ljóslaus og á nagladekkjum.  Stöðuljós bifreiðarinnar voru í ólagi og ástand ökurita aðfinnsluvert.

Í almennu umferðareftirliti við Hvolsvöll á laugardag var ökumaður fólksbifreiðar stöðvaður. Ástæða þótti til að kanna hvort farþegi væri með fíkniefni.  Hann heimilaði leit á sér og í vasa hans fannst lítið súkkulaðiegg sem innihélt hvítt duft sem grunur lék á að hafi verið fíkniefni.  Efnið var haldlagt og verður sent í rannsókn.  Maðurinn var yfirheyrður og látinn laus að því loknu.

Aðfaranótt sunnudags voru þrír menn í bifreið handteknir á Suðurlandsvegi við Landvegamót. Ökumaður var grunaður um að vera undir áhrifum fikniefna auk þess var grunur um að fíkniefni væru í bifreiðnni.  Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu á Selfossi og þeir síðar yfirheyrðir.  Í bifreiðinni fundust um 20 grömm af kókaíni og nokkrar óþekktar töflur.  Ökumaður sagði rangt til nafns og allir neituðu að eiga efnin en voru meðvitaðir um hvaða efni væri um að ræða.  Þremenningarnir voru látnir lausir að loknum yfirheyrslum.

Sex ára rússnenskur drengur brenndist annars stigs bruna á fæti þegar hann steig í holu með heitu vatni við íbúðarhús í Hveragerði í gærmorgun. Fóturinn var kældur meðan beðið var eftir sjúkrabifreið sem flutti drenginn á slysadeild Landspítala.

Eftir hádegi í gær voru lögreglumenn í hálendiseftirliti kallaðir til vegna franskrar konu sem fótbrotnaði á göngu í úfnu hrauni um tvo kílómetra sunnan við Landmannalaugar. Ékki þótti ráðlegt að bera konuna og því var þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til að sækja konuna og flytja hana á slysadeild Landspítalans.

Um svipað leyti var óskað aðstoðar vegna hlaupakonu í Laugavegshlaupinu sem datt og handleggsbrotnaði. Björgjunarsveitar fólk á hálendisvaktinni fluttu konuna á heilsugæsluna á Selfossi.

Á laugardag barst hálendiseftirliti lögreglu tilkynning um fjórhjól sem féll ofan í gil við Álftavatn á Fjallabaki syðra. Hálendisvakt Landsbjargar var skammt frá og fór á staðinn til að huga að ástandi þeirra sem voru á fjórhjólinu.  Í ljós kom að enginn slasaðist en fjórhjólið skemmtist eitthvað.

Lögreglumenn í hálendiseftirliti lögreglunnar á Suðurlandi komu að 28 verkefnum í síðustu viku. Stærsta verkefnið var banaslys í Sveinsgili þar sem franski göngumaðurinn féll í á.

Í vikunni voru 61 ökumaður kærður fyrir hraðakstur, fjórir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fjórir fyrir ölvunarakstur.