25 Apríl 2016 08:59

Lögreglumenn á eftirlitsferð við Seljalandsfoss höfðu afskipti af ökumanni og farþegum bíls sem var með virðisaukaskráninganúmer, rauðir stafir. Í ljós kom að ökumaðurinn var að nota bifreiðina í eigin þágu.  Hann var kærður fyrir að aka vsk bifreið til einkanota.

Milli klukkan átta og tíu á miðvikudagsmorgun voru skemmdir unnar á bíl sem var í bílastæði við FSU á Selfossi. Bíllinn er af gerðinni Ford Mondeo grá að lit.  Sýnilega hafði verið stigið uppá vélarhlíf bílsins og traðkað á henni.  Þeir sem geta veitt upplýsingar um verknaðinn eru vinsamlegast beðnir að hafa samaband við lögreglu í síma 444 20110 eða suðurland@logreglan.is.

Ungmennum undir 18 ára aldri var vísað út af skemmtistað á Selfossi á laugardagskvöld. Forráðamaður skemmtistaðarins ber ábyrgð á að gestir undir aldri sé ekki hleypt inn á skemmtistað þar sem vín er boðið til sölu.   Hann verður kærður fyrir brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Erlendur ferðamaður slasaðist á ökla er hann hrasaði í Skálpanesi við Langjökul á miðvikudag. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku HSU á Selfossi þar sem gert var að meiðslum hans.

Síðdegis á miðvikudag varð 10 ára drengur á reiðhjóli fyrir bíl á gangbraut á Eyravegi við Suðurhóla á Selfossi. Drengurinn var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku HSU.  Hann hlaut minni háttar meiðsl, skrámur og mar.

Ökumaður var kærður á Höfn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Í vikunni var 41 ökumaður kærður fyrir hraðakstur.  Einn þeirra var mældur á 150 km/klst., á Suðurlandsvegi austan við Hvolsvöll.  Ökumaðurinn var sviptur ökurétti til bráðabirgða.  Á laugardag var ökumaður mældur á  103 km/klst., á Suðurlandsvegi á Hellu þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst.

Lögreglumenn komu að 57 kærum í síðustu viku og 158 verkefnum sem eru af ýmsum toga eins og eftirliti með umferð, á ferðamannastöðum, skemmtistöðum auk forvarnaverkefna, aðstoð við borgarana og margt fleira.