8 Nóvember 2016 15:24

Alls urðu sex umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku. Þar af voru þrjár bílveltur sem ökumenn og farþegar virðast allir hafa sloppið vel frá og án teljandi meiðsla að því best er vitað. Réðu þar líknarbelgir og öryggisbelti miklu um. Meintur ökumaður í einni bílveltunni er grunaður um að hafa verið ölvaður og undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

Lögreglan hefur verið með eftirlit með rjúpnaskyttum og kannað með skotvopnaleyfi og veiðileyfi hjá mönnum frá því að rjúpnaveiðitímabilið hófst. Skemmst er frá því að segja að allir sem að lögreglan hefur rætt við hafa verið með allt sitt á hreinu. Ekki var gott rjúpnaveiðiveður um sl. helgi og mikil leit var gerð að tveimur skyttum á Snæfellsnesi sem að fundust heilar á húfi eftir vota og kalda næturvist á fjöllum. Lögreglan frétti af fleiri skyttum sem að höfðu villst í þokunni um tíma en síðan náð áttum og komist til byggða án aðstoðar. Mikilvægt er að hafa leiðsögutæki meðferðis í fjallaferðum og treysta ekki eingöngu á gsm símana sem vilja víða detta út í fjallendi og virka þá ekki lengur til leiðsagnar.

Hraðamyndavélin við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls tók myndir af 73 ökumönnum sem óku þar of hratt í sl. viku og myndavélin við Hagamel tók myndir af 32 ökumönnum á sama tíma.

Erlendir ferðamenn festu sig víða á fjallvegum í umdæminu og voru menn á dráttarbílum sendir þeim til aðstoðar. Einn var á Kaldadal, annar á Bröttubrekku og sá þriðji nærri Snæfellsjökli og sá fjórði vestur í Dölum.