27 Júlí 2016 14:26

Sjö umferðaróhöpp urðu í sl. viku í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi öll án teljandi meiðsla á fólki.  Fólksbíl var ekið af Hvalfjarðarvegi í veg fyrir jeppa sem ók norður Vesturlandsveg með hjólhýsi í eftirdragi. Lenti framhorn jeppans í hlið fólksbílsins.  Dráttarbíll var fengin til að fjarlægja ökutækin og hjólhýsið af vettvangi.  Speglar á rútu og vöruflutningabíl slógust saman á Snæfellsnesvegi í aflíðandi beygju vestan Hítarár. Rútan var þéttsetin af erlendum ferðamönnum sem að báru, ásamt ökumanni og leiðsögumanni, að vörubílnum hefði verið ekið of innarlega er bílarnir mættust.  Við speglasláttinn brotnaði hliðarrúða í rútunni ökumanns megin en engan sakaði.  Fengin var önnur rúta fyrir ferðamennina til að halda áfram ferð þeirra um mjóa vegi landsins.

Þvottur og róður. Lögreglan hafði afskipti af frönskum ferðamönnum í vikunni sem að voru að sigla á kæjak og þvo fötin sín í Bjarnadalsá í Norðurárdal í Borgarbyggð.  Frakkarnir voru komnir á þurrt er lögreglan hafði tal af þeim.  Var þeim gerð grein fyrir hvernig menn ættu að haga sér hérlendis varðandi þvotta og siglingar.

Hátíðin Á góðri stundu í Grundarfirði fór vel fram og voru yfir 1000 manns á hátíðinni að sögn heimamanna.  Talið var að yfir 500 manns hefðu verið á Sálarballinu sem var hluti dagskrárinnar.  Ungt par lenti í hremmingum er það var að klifra á athafnasvæði til hliðar við hátíðarsvæðið og fékk þá járngrind ofaná sig.  Var parið flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

„Búmerang“ Á golfvellinum að Hamri ofan Borgarness gerðist það að höggfastur en óheppin golfari sló golfboltann í stein og fékk hann til baka í höfuðið af miklum krafti.  Féll maðurinn við og lá eftir í grasinu.  Var hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, talið var að meiðsl hans hefðu verið minniháttar.

Ölvun við akstur. Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvun við akstur í umdæmi LVL í sl. viku.

Undarlegt aksturslag.  Í framhaldi af tilkynningu um undarlegt aksturslag bíls í Hvalfjarðargöngum hafði lögreglan afskipti af ökumanni og farþegum.  Fljótlega vaknaði grunur um akstur undir áhrifum fíkniefna og var fólkið því handtekið og fært á lögreglustöð.  Við leit í bílnum fundust meint fíkniefni, sterar og lyf sem var haldlagt. Að afloknum skýrslutökum var fólkinu sleppt.