17 Ágúst 2016 15:45

Í liðinni viku voru 95 kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Af þeim voru 24 stöðvaðir í sérstöku Öræfaeftirliti og 21 í sértöku Uppsveitaeftirliti í Árnessýslu.  14 voru kærðir af lögreglu í Vík, 6 af lögreglu á Kirkjubæjarklaustri, 11 af lögreglu á Hvolsvelli og 13 af lögreglu á Selfossi.  3 voru kærðir á Höfn og 3 voru kærðir af lögreglumönnum sem sinna sérstöku efitliti með ásþunga, merkingu og frágangi farms, brotum á reglum um aksturs- og hvíldartíma og rekstrarleyfum.

2 voru kærðir vegna gruns um ölvun við akstur og var annar þeirra sviptur ökurétti til bráðabirgða en hann hafði, fyrr á sama sólarhring verið kærður fyrir að aka bifreið sinni með 153 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.   1 var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Fossinn Gljúfrabúi, Kerið , Hólaskjól, Lakavegur, Fimmvörðuháls, Álftavatn, Jökuldalir, Svínafellsjökull, Dyrhólaey, Sundhöllin á Selfossi og Íþróttahús í Hveragerði eiga kannski ekki margt sameiginlegt en í liðinni viku urðu slys á öllum þessum stöðum sem leiddu til útkalla, ýmist bara hjá lögreglu og sjúkraflutningum en björgunarsveitir voru kallaðar til aðstoðar á hálendinu í nokkrum þessara tilfella.   Meiðsl voru í flestum tilfellum minniháttar, mar og tognanir en einnig brot á útlimum.   Að auki hefur hálendisgæsla þeirra sinnt fjölmörgum aðstoðarbeiðnum án þess að lögregla komi þar að nema með tilkynningu vegna skráningar slysa.

Á Landvegi, ofan Galtalækjar, valt bíll á nýlagðri klæðningu þann 12. ágúst s.l. tvennt var í bílnum og flutti þyrla LHG báða á sjúkrahús í Reykjavík.  Annar aðilinn var með áverka á hrygg en meiðsl hins voru minniháttar.  Um erlenda ferðamenn var að ræða.