20 Júní 2017 11:23

Vikan var þokkalega róleg hjá lögreglu þrátt fyrir fjölda fólks í bænum enda TM mót ÍBV haldið í vikunni.  Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og fá útköll á öldurhúsin. Eitthvað var þó um pústra án þess þó að kærur liggi fyrir.

Ein eignaspjöll voru kærð til lögreglu í vikunni en þarna höfðu rúður í bifreið sem var á Nýjahrauninu verið brotnar.  Hins vegar er ýmislegt sem bendir til þess að eigandi bifreiðarinnar hafi sjáflur brotið rúðurnar en ekki liggur fyrir hvað bjó að baki.

Fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en í öllum tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða og engin slys á fólki.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur í vikunn og þá liggja fyrir sjö aðrar kærur fyrir vegna brota á umferðarlögum en í flestum tilvikum var um ólöglega lagningu ökutækja að ræða.