21 Ágúst 2017 14:30

81 aðili var kærður fyrir að aka of hratt í liðinni viku og hafa nú 1584 orðið þeirra örlaga aðnjótandi það sem af er árs í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi.   Ökuhraði er alltaf sérstakt áhersluatriði í umferðareftirlitinu þar sem að beint orsakasamband er milli ökuhraða og umferðarslysa og síðan afleiðinga slysanna.  Því hraðar sem ekið er þeim mun meiri líkur eru á að lenda í slysi og eftir því sem hraðinn er meiri eru líkur á að meiðslin verði meiri.  Þekkt sannindi sem vilja gleymast.  Af þessum ökumönnum voru 14 kærðir af lögreglumönnum við sérstakt eftirlit í Öræfum en þar hefur verið gerður út sérstakur bíll til að bregðast við mikilli umferð þar og þeirri staðreynd að 200 km eru á milli lögreglustöðva á Höfn annarsvegar og Kirkjubæjarklausturs hinsvegar.  3 voru kærðir við Vík, 3 á Kirkjubæjarklaustri  og 17 af eftirliti gerðu út frá Hvolsvelli.  Sérstakt eftirlit í uppsveitum Árnessýslu leiddi til þess að 2 voru kærðir fyrir hraðakstur þar.  „Pundararnir“ okkar,  þessir sem áður voru hjá Samgöngustofu og sinntu eingöngu tilteknum umferðarlagabrotum sem undir þá stofnun heyrði, kærðu 13 fyrir að aka of hratt. 27 voru kærðir fyrir of hraðan akstur af eftirlitsbílum frá Selfossi.  Einn þeirra,  stúlka um tvítugt, reyndist undir áhrifum fíkniefna þar sem hún ók bifreið sinni um Hellisheiði með 135 km/klst hraða þar sem leyfður hraði er 90 km/kls.   Hún var færð á stöð til töku blóðsýna og í framhaldi af því svipt ökuréttindum til bráðabirgða.    5 aðrir reyndust undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í umdæminu, einn var tekinn grunaður um ölvun á Höfn, annar á Selfossi, einn við Hveragerði, einn í uppsveitum Árnessýslu og  einn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða lyfja á Suðurlandsvegi austan við Hvolsvöll.

Álagðar sektir s.l. viku vegna umferðarlagabrota sem ljúka má með greiðslu greiðsluseðils nema um 5,6 milljónum í umdæminu. Um er að ræða 113 mál alls og af þeim kærðu bera rétt tæplega 40 % íslenska kennitölu.

Göngumenn slösuðu sig í umdæminu líkt og áður, einn braut ökkla í Stafafellsfjöllum í Lóni þar sem hann var á gangi skammt frá sumarbústað sínum.  Annar braut ökkla á göngu sinni í Reykjadal og sá þriðji hlaut svipaða áverka af göngu sinni við Fjallsárlón.  Þá slösuðust þrír hestamenn í vikunni, einn við útreiðar á Rangárvöllum, annar í uppsveitum Árnessýslu og sá þriðji í Ölfusi.  Engin þó alvarlega eftir því sem best er vitað.

Unnið er að gerð viðbragðsáætlana vegna náttúruhamfara og nú nýverið hafa lokadrög verið sett inn á vef almannavarna vegna þriggja slíkra.   Um er að ræða viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Heklu (Hér), Viðbragðsáætlun vegna ferjuslyss við Suðurströndina (Hér) og viðbragðsáætlun vegna hópslysa á Suðurlandi (Hér)   Eitt af stóru verkefnunum á sviði almannavarna í umdæminu í vetur verða sérstakar áhersluvikur á sviði almannavarna í öllum 14 sveitarfélögunum í umdæminu.  Þessar vikur verða unnar í nánu samstarfi við lykilstarfsmenn í sveitarfélögunum og hluti af dagskránni verður íbúafundur þar sem fjallað verður um málefni sem snerta íbúa hvers sveitarfélags beint.