18 Janúar 2017 20:16

Um hádegisbil í dag handtóku lögreglumenn í sérsveit ríkislögreglustjóra tvo menn um borð í grænlenska fiskiskipinu Polar Nanoq u.þ.b. 90 mílur suðvestur af landinu. Sérsveitarmennirnir fóru um borð í skipið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF. Ástæða aðgerðar lögreglu er sú að við rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu Brjánsdóttur hafa vaknað grunsemdir um að þeir sem handteknir voru búi yfir upplýsingum um hvarf hennar. Hinir handteknu verða yfirheyrðir við komuna til landsins. Aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra tókst afar vel og var stýrt af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóranum og Landhelgisgæslu frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Enginn mótþrói var sýndur þegar lögreglumennirnir stigu um borð í skipið.

Í gær fóru fjórir lögreglumenn frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með þyrlu Landhelgisgæslunnar til móts við danska herskipið HDMS Triton og þar um borð. Skipið sigldi síðan til móts við Polar Nanoq. Skipin mættust við miðlínu á milli Íslands og Grænlands um kl. 6 í morgun. Ekki varð af því að lögreglumennirnir færu um borð í grænlenska skipið þegar skipin mættust við miðlínu heldur var ákveðið að skipið sigldi áfram áleiðis til Hafnarfjarðar og þyrla Landhelgisgæslunnar flygi til móts við skipið með sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra svo sem að framan greinir. HDMS Triton kemur til hafnar í Hafnarfirði á sama tíma og Polar Nanoq.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þakkar ríkislögreglustjóranum, Landhelgisgæslunni og áhöfn HDMS Triton fyrir samstarfið og veitta aðstoð.