Framhaldsdeild

Síðast uppfært: 9 Mars 2015 klukkan 14:50

Framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins er fyrst og fremst rekin sem þjónustustofnun fyrir lögregluembætti landsins. Þar eru haldin námskeið á þremur aðgreindum sviðum.

Er þar fyrst að nefna símenntunarsvið þar sem lögreglumönnum er boðið að koma á fimm ára fresti á skipulegt símenntunarnámskeið þar sem lögð er áhersla á upprifjun og kynningu nýmæla á starfssviðinu.

Þá er það sérmenntunarsvið þar sem lögreglumönnum og e.a. öðrum er boðið að sækja námskeið sem miða aðallega að því að byggja upp sérþekkingu innan lögreglunnar á ýmsum sviðum.

Þriðja sviðið er svo stjórnunarsvið sem í lögreglulögunum er kallað framhaldsmenntun. Þar er haldið nám fyrir stjórnendur í lögreglu, bæði starfandi og verðandi stjórnendur.

Námskeið í framhaldsdeild eru yfirleitt lögreglumönnum og embættunum að kostnaðarlausu en frá því eru þó þær undantekningar að nemar í stjórnunarnámi, sem haldið er í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, greiða þátttökugjald og á einstaka námskeið, þar sem fengnir eru til liðs við skólann leiðbeinendur frá öðrum skipulagsheildum en lögreglunni eða frá útlöndum, er krafist þátttökugjalds en það er þá tilkynnt í hvert sinn.

Framhaldsdeild skólans er til húsa á 3. hæð að Krókhálsi 5A og einnig hefur hún aðstöðu á 2. hæð byggingarinnar þar sem er kennslusalur og vinnuherbergi sem nýtast vel við úrlausnir hópverkefna.

Hægt er að hafa samband við framhaldsdeild skólans í gegnum netfangið framhaldsdeild@logreglan.is.