Inntaka nýnema

Síðast uppfært: 15 Júlí 2015 klukkan 10:30

Valnefnd Lögregluskóla ríkisins hefur valið 16 umsækjendur til að hefja nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins þann 1. september. Í hópi nýnemanna eru 11 karlar (68,75%) og 5 konur (31,25%).

Umsóknarfrestur til að sækja um skólavist rann út þann 22. júní og inntökuprófum lauk þann 30. júní. Alls bárust 160 umsóknir, tveir umsækjendur uppfylltu ekki almenn inntökuskilyrði og því voru 158 umsækjendur boðaðir í inntökupróf, 97 karlar og 61 kona.

Níu umsækjendur drógu umsókn sína til baka og fjórir mættu ekki í inntökupróf. Það voru því 145 umsækjendur sem mættu í inntökupróf í þreki, íslensku, almennri þekkingu og ensku. Auk þess gengust umsækjendurnir undir sálfræðimat þar sem lagt er mat á persónuleika þeirra og álagsþol.

Niðurstaðan var sú að 77 umsækjendur uppfylltu almenn inntökuskilyrði og stóðust inntökupróf, 53 karlar (68,8%) og 24 konur (31,2%). Af þeim voru 32 boðaðir til viðtals hjá valnefndinni sem valdi þá hæfustu 16 úr þeim hópi.