5 Júlí 2013 12:00

Húsnæði sem stendur autt til lengri tíma getur verið auðvelt skotmark innbrotsþjófa, en hægt er að grípa til ýmissa ráðstafana til að draga úr líkum á innbroti. Einnig er gott að geta leitað til nágranna þegar farið er í frí og fá þá til að líta til með húsnæðinu. Alltaf eru einhverjir heima í nágrenninu og því sjálfsagt að tala við góða granna, láta þá vita þegar menn verða fjarverandi um lengri tíma og biðja þá að hafa augun opin fyrir vafasömum mannaferðum. Sumir hafa það mikið samband við nágranna að þeir láta hann fá lykil að íbúðinni þannig að hann getur farið þangað reglulega, tekið póstinn, kveikt ljós, breytt gluggatjöldum o.fl.

Innbrotsþjófur sem sér að fylgst er með ferðum hans er yfirleitt fljótur að koma sér burt. Það getur oft skipt lögreglu miklu máli að fá lýsingu á mönnum og bifreiðum og bílnúmer. Þannig getur athugull nágranni bæði stuggað við þjófi og gefið lögreglunni upplýsingar. Það er betra að hringja einu sinni of oft í lögreglu með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan. Til eru fjölmörg dæmi þess að innbrot hafa verið upplýst vegna þess að nágrannar voru vel vakandi og höfðu auga með húsum nágranna sinna og létu lögreglu vita um grunsamlegar ferðir manna og bifreiða.

Það hefur oft gerst að menn hafa hringt dyrabjöllum og þegar komið er til dyra hafa þessir menn spurt eftir einhverjum með nafni og sagt að þeir hafi átt að taka hann með í vinnu eða eitthvað álíka. Þegar sagt var að enginn slíkur byggi þar hafa mennirnir afsakað sig með að hafa farið götuvillt. Stundum hafa þessir menn notað aðrar afsakanir og ástæður. Þarna eru menn oft að kanna hvort einhver sé heima í húsinu með það í huga að brjótast inn. Ástæða er til að benda fólki á að vera á verði gagnvart svona mönnum, fylgjast með ferðum þeirra og tilkynna til lögreglu.