17 Mars 2017 11:12

Ráðstefna um álag og fjölgun slysa hjá lögreglunni var haldin á Grand hótel síðastliðinn miðvikudag. Ráðstefnan var vel sótt en um 100 manns sátu ráðstefnuna sjálfa og á þriðja hundrað manns fylgdust með henni í gegnum beina útsendingu. Fyrirlesarar ráðstefnunnar voru frá lögreglunni, Vinnueftirlitinu og Vinnuvernd.

Meðal þess sem kom fram er að þegar vinnuslys hjá lögreglu eru borin saman við aðra hópa líkt og byggingariðnað og fiskvinnslu eru slys á hverja 1000 starfsmenn mun tíðari hjá lögreglu eða 1 af hverjum 6. Algengustu orsakir vinnuslysa meðal lögreglumanna eru í tengslum við, samskipti við fólk, þjálfun og akstur. Í nýlegri rannsókn sem gerð var af embætti ríkislögreglustjóra á starfsumhverfi lögreglumanna kemur í ljós að þeir þættir sem lögreglumenn eru hvað óánægðastir með í starfsumhverfinu sínu tengist þjálfun, búnaði og upplýsingaflæði. Þá minnkaði starfsánægja lögreglumanna á milli áranna 2014 og 2015 eða um 8%. Þegar fjarvistir lögreglumanna hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu eru skoðaðar kemur í ljós að allt að 2/3 mála er rata til trúnaðarlæknis megi rekja til fjarvista vegna álags og síendurtekinna meiðsla. Þá eru veikindafjarvistir lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu tæplega 10% árið 2016 en til samanburðar eru veikindafjarvistir hjá Landsspítalanum 6,5%. Þá eru vísbendingar um að álag og streita hafi aukist meðal lögreglumanna sem megi að hluta rekja til aukins ferðamannastraums til landsins og manneklu innan lögreglunnar.

Það er á ábyrgð bæði vinnuveitenda og starfsmanna að stuðla að góðu vinnuumhverfi. Ljóst er að huga þarf enn betur að starfsumhverfi lögreglunnar líkt og bættri öryggismenningu og þjálfun og fræðslu. Embætti ríkislögreglustjóra mun leggja fyrir streitukönnun nú í vor til kortleggja betur tíðni og alvarleika streitu og kulnunar í starfi. Þá mun embættið í samvinnu við lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu, Vinnueftirlitið, Landssamband lögreglumanna og innanríkisráðuneytið vinna að frekari tillögum til úrbóta t.d. hvað þjálfun stjórnenda um vinnuvernd og þjálfun lögreglumanna varðar og hvernig megi bæta starfsumhverfið þannig að starfsmenn lögreglu komi heilir heim.“