20 Maí 2016 11:27

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir aprílmánuð 2016 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

 

Í apríl voru skráðar 689 tilkynningar um hegningarlagabrot, sem gerir um það bil 23 tilkynningar á dag. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 336 tilkynningar um þjófnaði í apríl, þar af voru 97 tilkynningar um innbrot. Tilkynningum um innbrot fjölgar nokkuð miðað við síðastliðna tvo mánuði, en fjöldinn er svipaður og meðalfjöldi tilkynninga síðastliðna 12 mánuði. Skráð voru 76 fíkniefnabrot í apríl og fækkar þeim töluvert á milli mánaða. Það sem af er ári hafa verið skráð um 21 prósent færri fíkniefnabrot borið saman við meðalfjölda fyrir sama tímabil síðustu þriggja ára. Nú þegar sólin fer hækkandi, sumarið nálgast og reiðhjólum fjölgar á götum borgarinnar er vert að minna eigendur reiðhjóla á að vera á varðbergi og ganga tryggilega frá reiðhjólum sínum. Reiðhjólaþjófnuðum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um rúmlega 124 prósent á milli mánaða og má ætla að þeim haldi áfram að fjölga á næstu mánuðum.