7 Apríl 2015 14:41

Um helgina hafði lögreglan afskipti af fólki sem dvaldi í nokkrum húsum í gömlu byggðinni í Súðavík.  Eins og flestir ættu að vita er sólarhringsdvöl bönnuð í þessum húsum á tímabilinu frá 1. nóvember til og með 30. apríl ár hvert.

Alls voru 51 ökumaður kærður fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða frá tímabilinu frá 1. apríl  til mánudags 6. s.m.   Flest þessara brota voru í Ísafjarðardjúpi og í nágrenni Hólmavíkur en einnig innanbæjar á Ísafirði og í Bolungarvík.  Sá sem hraðast ók var mældur á 136 km hraða þar sem leyfilegur hraði er 90 km.  Þá var einn þessara ökumanna stöðvaður í Bolungarvík þegar hraði bifreiðar hans mældist  86 km innan bæjar í Bolungarvík en þar er hámarkshraði 50 km.  Einn þessara ökumanna var með útrunnin ökuréttindi og var gert að hætta akstri.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvun við akstur.  En auk þess voru fleiri farþegar í bifreið annars aðilans en hún er skráð fyrir.

Einn aðili gisti fangaklefa á Ísafirði meðan áfengisvíman rann af honum.  Sá hafði fundist ósjálfbjarga í miðbæ Ísafjarðar og gat ekki gert grein fyrir sér, dvalarstað eða öðru.  Annar aðili gisti fangaeymslu meðan mál hans var rannsakað.  Sá var grunaður um akstur undir árifum áfengis og fíkniefna, auk þess sem á honum fannst lítilræði af kannabisefnum.

Tveir menn voru kærðir fyrir að kasta af sér þvagi í miðbæ Ísafjarðar.

Alls voru fjórir ökumenn kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.  Þrír á Ísafirði og nágrenni og einn í Vesturbyggð.

Lagt var hald á fíkniefni, n.t.t. kannabisefni á einum aðila á Ísafirði og einum í Vesturbyggð.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp þessa daga á Vestfjörðum.  Um var að ræða minniháttar óhapp þegar vindhviða feykti upp vélarhlíf bifreiðar með þeim afleiðingum að framrúða brotnaði.

Ekkert annað umferðaróhapp eða umferðarslys varð þessa daga og telst það til tíðinda í ljósi þess umferðarþunga sem var á Vestfjörðum.  Markmið lögreglunnar var að vera með markvisst eftirlit í þeim tilgangi að íbúar og gestir nytu sem mest öryggis.

Samkomur sem fram fóru í umdæminu fóru vel fram.