26 Nóvember 2015 18:47

Vegna frétta fjölmiðla í dag um skotvopn lögreglu vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka sérstaklega fram að lögreglumenn þess verða áfram óvopnaðir við öll sín venjulegu störf. Jafnframt er mikilvægt að árétta að ekki er verið að láta embættinu í té ný skotvopn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar yfir að ráða skotvopnum og hefur svo verið alllengi. Til þeirra á að vera hægt að grípa þegar neyðarástand skapast og svo verður áfram, en með þeirri breytingu að ákveðnir útkallsbílar verða búnir skotvopnum í öruggum hirslum. Undanfarið hafa ný ökutæki lögreglu verið afhent með sérstöku öryggishólfi, til að geyma vopn, en þetta fyrirkomulag hefur verið notað hjá öðrum lögregluliðum í landinu um nokkra hríð.

Áfram gilda mjög strangar reglur um hvenær megi grípa til skotvopna og er slíkt ávallt háð ákvörðunum yfirmanna hjá lögreglu. Þess má enn fremur geta að reglur er lúta að valdbeitingu lögreglu eru frá árinu 1999, en þær fjalla einnig um það þegar skotvopn eru höfð til taks í lögreglubílum.