11 Janúar 2018 13:08

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir desembermánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 670 tilkynningar um hegningarlagabrot í desember og fækkaði tilkynningum nokkuð á milli mánaða. Hlutfallslega fækkaði tilkynningum um kynferðisbrot mest í desember miðað við fjölda síðustu sex og síðust 12 mánaða á undan. Tilkynnt var um 12 kynferðisbrot sem áttu sér stað í desember sem er tæplega 50 prósent færri tilkynningar en bárust að meðaltali síðustu sex mánuði á undan. Þjófnuðum fækkaði einnig umtalsvert í desember miðað við fyrri mánuði. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 265 tilkynningar um þjófnaði í desember og hafa ekki borist jafn fáar tilkynningar í einum mánuði frá því í desember 2007, þegar 264 tilkynningar voru skráðar. Í desember var tilkynnt um 121 ofbeldisbrot, aðeins einu sinni áður hafa tilkynningar um ofbeldisbrot verið fleiri frá því samræmdar skráningar hófust hjá lögreglu árið 1999. Flestar tilkynningar bárust í ágúst 2015, 128 talsins. Heilt yfir bárust um 16 prósent fleiri tilkynningar um ofbeldisbrot árið 2017 miðað við meðaltal síðustu þriggja ára á undan.