Frá vettvangi á Reykjanesbraut.
27 Júlí 2015 12:02

Í þar síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. júlí.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 12. júlí. Kl. 19.36 hjólaði hjólreiðarmaður á leið vestur Bólstaðahlíð í hlið fólksbifreiðar, sem ekið var norður Lönguhlíð. Reiðhjólið var hemlalaust. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.15 féll drengur af reiðhjóli við Kópavogslæk nálægt Hafnarfjarðarvegi. Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 14. júlí kl. 10.29 féll drengur af reiðhjóli á Bæjarbraut við Hofstaðabraut þegar framhjólið fór undan því. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 15. júlí. Kl. 19.24 varð aftanákeyrsla við hringtorg á Reykjanesbraut við Lækjargötu. Ökumaður fremri bifreiðarinnar og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.06  var bifreið ekið á tvær mannlausar bifreiðir á Hofsvallagötu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 17. júlí kl. 19.10 var léttu bifhjóli ekið utan í gangandi vegfaranda á gatnamótum Lækjargötu og Bankastrætis. Bifhjólinu var ekið suður Lækjargötu og gangandi vegfarandinn var á gangbraut á leið til austurs yfir götuna, gegnt rauðu ljósi.  Ökumaðurinn var 14 ára og hafði því ekki tilskilin réttindi til aksturs á léttu bifhjóli. Gangandi vegfarandinn kenndi til eymsla í fæti og ætlaði sjálfur að leita sér aðhlynningar á slysadeild.

Laugardaginn 18. júlí kl. 17.48 féll maður af reiðhjóli er hann hjólaði á kanstein á göngustíg milli Seljakirkju og leikskólans Seljakots. Maðurinn, sem var hjálmlaus, féll beint fram fyrir sig og yfir stýrið. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.