Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
23 Ágúst 2016 18:31

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. ágúst.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 14. ágúst. Kl. 7.43 var bifreið ekið norður Suðurlandsveg með fyrirhugaða akstursstefnu vestur Vesturlandsveg. Í beygjunni missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.18 féll gangandi vegfarandi í götuna eftir að hafa haldið í hurðarhún brúnnar Volvo fólksbifreiðar, sem ekið var af stað frá Naustunum og beygt hiklaust vestur Tryggvagötu þar sem hún hvarf sjónum. Hinn slasaði var fluttur á slysadeild. Kl. 14.15 féll farþegi í strætisvagni er honum var ekið af stað á Kaplaskjólsvegi og síðan snögghemlað. Farþeginn skall við aðfarirnar með höfuðið í slökkvitæki. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.35 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi, vestur við Korputorg. Ökumaður aftari bifreiðarinnar hafði verið um of upptekinn af veski sínu áður en óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 15. ágúst. Kl. 7.40 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Bústaðavegi austan Flugvallavegar á leið til vesturs. Sjúkrabifreið með forgangsljós hafði stöðvað á Flugvallavegi norðan Bústaðavegar þegar ökumaður fremstu bifreiðarinnar stöðvaði við gatnamótin á grænu ljósi með framangreindum afleiðingum. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.14 varð árekstur með bifreið sem ekið var vestur Bæjarháls, og bifreið, sem ekið var austur götuna og beygt áleiðis norður Klettháls. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 18. ágúst. Kl. 11.38 var bifreið ekið áleiðis út af bifreiðastæði við Laugaveg inn á Bolholt og í hlið bifreiðar, sem ekið var vestur Bolholt. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar, ófrísk kona, var fluttur á slysadeild til skoðunar. Og kl. 18.50 varð aftanákeyrsla á Suðurlandsvegi við afleggjara að Hvammi. Ökumaður og farþegi fremri bifreiðarinnar fóru sjálfir á slysadeild eftir óhappið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 19. ágúst. Kl. 14.40 valt jeppabifreið í Ártúnsbrekku. Bifreiðinni hafði verið ekið vestur götuna og beygt yfir á akrein til vinstri, í veg fyrir flutningabifreið með þeim afleiðingum að hún valt út fyrir veg. Ökumaður og farþegi jeppabifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.59 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi við afleggjarann að Leiruvegi til norðurs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar hafði verið upptekinn við að virkja hraðastillingartakkann þegar óhappið varð. Hann, ófrísk kona, var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. ágúst. Kl. 0.05 féll ökumaður af mótorhjóli á Bollagötu. Maðurinn, sem var hjálmlaus og grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.53 féll hjólreiðamaður á Suðurströnd á móts við Bakkagarð. Ökumaðurinn, sem var hjálmlaus, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.