Frá vettvangi við Þingvallaveg.
27 Febrúar 2017 11:05

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur og einn lést í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. febrúar.

Sunnudaginn 19. febrúar kl. 5.11 var bifreið ekið aftur á bak á bifreiðastæði við Hraunbæ 107 og á hægri hlið lögreglubifreiðar, sem hafði verið stöðvuð við afturhorn hennar eftir eftirför um Höfðabakka, Bæjarháls og Hraunbæ. Lögreglumaður, farþegi, hafði verið að stíga út þegar atvikið varð. Hann meiddist á fæti og var fluttur á slysadeild. Ökumaður bifreiðarinnar reyndi að komast undan á fæti, en náðist. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hann hafði verið sviptur ökuréttindum með dómi.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 21. febrúar. Kl. 6.48 varð árekstur með bifreiðum, sem var ekið úr gagnstæðum áttum á Reykjanesbraut á móts við Brunnhóla. Báðir ökumennirnir og farþegi í bifreið, sem var ekið í vesturátt, voru fluttir á slysadeild, þar sem farþeginn var úrskurðaður látinn. Og kl. 12.06 var bifreið ekið vestur Þingvallaveg og út fyrir veg gegnt Seljabrekku þar sem hún valt heila veltu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 25. febrúar. Kl. 3.17 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut, í afrein að Bústaðavegi og beygt áleiðis vestur Bústaðaveg, og bifreið sem var ekið vestur Bústaðaveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.56 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi við Þingvallaveg.