Frá vettvangi í Hæðasmára.
12 Júní 2017 11:38

Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í fjórtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. júní.

Sunnudaginn 4. júní kl. 10.53 féll hjólreiðamaður á leið til vesturs á gangstétt Fífuhvammsvegar gegnt Smáralind af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 5. júní. Kl. 4.53 var bifreið ekið á vegrið við hringtorg Vesturlandsvegar í Álafosskvossinni. Ökumaðurinn, sem hafði sofnað við aksturinn, var fluttur á slysadeild. Kl. 14.49 var bifhjóli á leið suður Reykjanesbraut ekið aftan á bifreið gegnt Kauptúni. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Kl. 16.31 féll farþegi af vespu í Gvendargeisla. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.25 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til norðurs, sunnan Suðurlandsvegar. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 6. júní. Kl. 15.15 féll drengur af reiðhjóli er framhjól losnaði undan því í Hulduhlíð. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.04 var hjólreiðamaður fyrir bifreið í Sóleyjarrima við Smárarima er hann var á leið yfir götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. júní. Kl. 20.14 féll 12 ára drengur af rafmagnsvespu á göngustíg milli Viðarrima og Rimaskóla. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.08 hjólaði 10 ára gamall drengur á hlið bifreiðar í Dalsbyggð er henni var beygt áleiðis að heimkeyrslu húss. Drengurinn var fluttur á Læknavaktina.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 9. júní. Kl. 10.42 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut og beygt áleiðis suður Vatnsendahvarf, og bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.25 var bifreið ekið suður Seljaskóga, útaf akbrautinni til hægri, lenti á handriðinu og skollið á steyptum vegg í bakgarði að Hagaseli 5 eftir að hafa farið tvær veltur og staðnæmst á göngustígnum milli akbrautanna. Ökumaðurinn, sem virðist hafa fengið aðsvif, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 10. júní. Kl. 14.46 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Hafnarfjarðarveg og beygt áleiðis vestur Lyngás, og bifreið, sem var ekið suður Hafnarfjarðarveg. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.03 var aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Kaplakrika á leið til suðurs. Farþegi í fremri bifreiðinni ætlaði að leita sér aðhlynningar á slysadeild. Og kl. 19.41 var bifreið ekið vestur Hæðasmára og beygt norður Hæðasmára í átt að hringtorginu við Hagasmára/Hæðasmára. Þegar bifreiðin kom út úr beygjunni var henni ekið upp á gangstétt, síðan á grjót sem var við endann á gangstéttinni og við það valt bifreiðin. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi í Hæðasmára.