Frá vettvangi á mótum Dalvegar og Breiðholtsbrautar.
4 Júlí 2017 10:31

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. júní – 1. júlí.

Mánudaginn 26. júní kl. 8.38 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Snorrabraut, og bifreið, sem var ekið norður Snorrabraut og beygt áleiðis vestur Hverfisgötu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 27. júní kl. 12.19 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið norður Dalveg. Síðarnefnda bifreiðin hafnaði á ljóstaur við gatnamótin eftir áreksturinn. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 30. júní kl. 14.24 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Lönguhlíð, og bifreið, sem var ekið vestur Háteigsveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 1. júlí. Kl. 0.19 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut þar sem hún valt á hjáleið umgirtum steypuveggeiningum við vinnusvæði mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg. Ökumaðurinn, sem grunaður er um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Kl. 10.49 var bifreið ekið aftan á bifreið, sem var ekið norður Njarðargötu og beygt áleiðis austur Hringbraut. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.43 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu gegnt Fífuseli 25. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á mótum Dalvegar og Breiðholtsbrautar.