Frá vettvangi á Sæbraut.
17 Júlí 2017 10:16

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. júlí.

Sunnudaginn 9. júlí kl. 3.20 var bifreið ekið vestur Sæbraut og velt við gatnamót Laugarnesvegar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 10. júlí kl. 15.18 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Höfðabakka og beygt vestur Dvergshöfða, og bifhjóli, sem var ekið suður Höfðabakka. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 1l. júlí. Kl. 14.43 valt rafmagnsdrifið þríhjól á göngustíg vestan Hafnarfjarðarvegar gegnt Kópavogstúni á leið til norðurs. Drengur og stúlka, sem voru á hjólinu, voru flutt á slysadeild. Kl. 16.01 varð drengur á reiðhjóli fyrir bifreið í Safamýri. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.12 var bifreið ekið suður Barónsstíg frá Skúlagötu, yfir á rangan vegarhelming og framan á bifhjól, sem var ekið norður götuna. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 12. júlí kl. 8.16 lenti hjólreiðamaður á leið vestur Skipholt á hlið bifreiðar, sem var ekið vestur götuna á undan honum og beygt áleiðis til hægri að bifreiðastæði við hús nr. 35. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Sæbraut.