Frá vettvangi á Arnarnesvegi.
23 Október 2017 11:07

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. október.

Sunnudaginn 15. október kl. 14.10 var bifreið ekið vestur Nesveg þegar ökumaður hennar fékk flogaveikiskast. Bifreiðinni var þá ekið yfir á öfugan vegarhelming móts við hús nr. 63 og lenti utan í vinstri hlið bifreiðar, sem ekið var austur veginn. Við áreksturinn lenti sú bifreið utan í mannlausri bifreið. Fyrstnefnda bifreiðin hafnaði loks uppi á gangstétt og á steypustöpli og ljósastaur sunnan við gatnamót Nesvegar og Sörlaskjóls. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 16. október. Kl. 7.22 var bifreið ekið á skilti á Hnoðraholti við Vífilsstaðaveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Jaðarsel, og bifreið, sem var ekið suður Seljabraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.56 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut og aftan á kyrrstæða bifreið á akreininni gegnt Garðheimum. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar hafði yfirgefið hana stutta stund eftir að hún varð rafmagnslaus. Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 17. október. Kl. 7.42 varð fimm bifreiða aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi til norðurs við Kópavogsháls. Tveir ökumenn voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.28 var tvímenntu léttu bifhjóli ekið á gangandi vegfaranda við Arnarhraun gegnt húsi nr. 25. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 18. október kl. 16.27 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Álftanesveg. Allir ökumennirnir þrír voru fluttir á slysadeild. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar hafði fengið sykurfall áður en óhappið varð.

Föstudaginn 20. október kl. 13.59 lenti hjólreiðamaður á bifreið á Háhæð við Nónhæð. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 21. október. Kl. 5 varð gangandi vegfarandi á leið til austurs yfir Lækjargötu, gegnt húsi nr. 6a fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 11.04 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni við Hvaleyrarvatn með þeim afleiðingum að hann og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.23 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Arnarnesveg og beygt til norðurs að Hafnarfjarðarvegi, og bifreið, sem var ekið vestur Arnarnesveg. Báðir ökumennirnir og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Arnarnesvegi.