Frá vettvangi á Kringlumýrarbraut.
7 Nóvember 2017 10:11

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. október – 4. nóvember.

Þriðjudaginn 31. október kl. 21.54 var bifreið ekið austur Krýsuvíkurveg og velt utan vegar við gatnamót Bláfjallavegar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um lyfja- og fíkniefnaneyslu, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. nóvember. Kl. 16.17 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til norðurs við gatnamót Bústaðavegar. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.15 varð aftanákeyrsla á Höfðabakka til suðurs á Höfðabakkabrú. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 2. nóvember. Kl. 13.14 var bifreið ekið á kyrrstæða bifreið á Veiðimannavegi við Straum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.18 varð hjólreiðamaður á leið til austurs yfir Reykjaveg norðan Suðurlandsbrautar fyrir bifreið, sem var ekið vestur brautina og beygt áleiðis norður Reykjaveg. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 3. nóvember. Kl. 9.56 var bifreið ekið út fyrir Elliðavatnsveg við Heiðmerkurveg. Ökumaðurinn leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Kl. 14.02 varð eigandi bifreiðar fyrir henni í Asparholti. Eigandinn hafði ræst bifreiðina og var byrjaður að skafa hélaðar rúðurnar þegar hún rann af stað. Hann reyndi að stöðva bifreiðina með framangreindum afleiðingum. Eigandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.17 var bifreið ekið norður Borgarholtsbraut. Gegnt húsi nr. 7 gekk drengur út á götuna á gangbraut og á hlið bifreiðarinnar. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 4. nóvember. Kl. 12.47 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Laugavegar, Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar. Eftir áreksturinn valt önnur bifreiðin út fyrir gatnamótin. Ökumaður og farþegi í henni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.29 varð árekstur með bifreið, sem var ekið Skemmuveg í norður um hringtorg við Smiðjuveg, og bifreið, sem var ekið vestur Skemmuveg og áleiðis inn á hringtorgið. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar hafði verið með athyglina á farsíma sínum áður en óhappið varð. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Kringlumýrarbraut.