Frá vettvangi við Vesturlandsveg.
8 Janúar 2018 09:25

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur og einn lést í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. desember – 6. janúar.

Sunnudaginn 31. desember kl. 4.33 var bifreið ekið vestur Ásbraut og á ljósastaur austan Goðatorgs. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Hann, ásamt farþega, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 1. janúar. Kl. 5.17 var lögreglubifreið ekið aftan á bifreið, sem stöðvast hafði á lokunum á göngustíg við Húsdýragarðinn í Laugardal eftir eftirför frá gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um vímuefnaakstur. Farþegi í lögreglubifreiðinni var fluttur á slysadeild. Kl. 13.40 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg og á vegrið og ljósastaur skammt frá undirgöngum Breiðhöfða. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.33 var bifreið, á leið vestur Reykjanesbraut vestan álversins, ekið framúr bifreið, sem var ekið sömu leið, en beygt til vinstri, áleiðis út af brautinni að sunnanverðu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar ætlaði að leita sér aðstoðar í framhaldinu á sjúkrahúsi Reykjanesbæjar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 3. janúar. Kl. 9.35 var fólksbifreið ekið vestur Vesturlandsveg. Í aflíðandi beygju austan Esjubergs var bifreiðinni ekið yfir á rangan vegarhelming og framan á vörubifreið, sem var ekið austur veginn. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild þar sem ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var úrskurðaður látinn. Tvær aðrar bifreiðir urðu fyrir skemmdum við áreksturinn. Og kl. 16.19 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Selhellu og Hraunhellu. Ökumaður og farþegi annarrar bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 5. janúar kl. 9.46 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Sæbraut og beygt vestur Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið suður Sæbraut. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. janúar. Kl. 16.05 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Kringlunni við Listabraut. Honum var ekið á slysadeild. Og kl. 18.14 var bifreið ekið aftan á aðra á leið norður Langatanga við Bogatanga. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Vesturlandsveg.