Frá vettvangi á Seltjarnarnesi.
12 Mars 2018 10:23

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. mars.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 4. mars. Kl. 9.21 valt bifreið við bifreiðastæðið hjá Gróttu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.36 valt bifreið á Heiðmerkurvegi við Helluvatn. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 8. mars kl. 23.11 var bifreið ekið vestur Kalkofnsveg og velt á hliðina gegnt Hörpu. Ökumaðurinn, sem er sviptur ökuréttindum og grunaður um ölvun við akstur, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 9. mars. Kl. 10.53 varð árekstur með steypubifreið og fólksbifreið á gatnamótum Vatnagarða og Sægarða. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 15.40 varð árekstur með fólksbifreið og vörubifreið á Reykjanesbraut til vesturs, skammt austan aðreinar að Kauptúni. Þrennt var flutt á slysadeild. Og kl. 15.56 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Smiðjuvegi til norðurs gegnt gatnamóum Gulrar götu. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Seltjarnarnesi.