Frá vettvangi á Reykjanesbraut sl. laugardag.
27 Janúar 2015 11:21

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. janúar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 20. janúar. Kl. 8.03 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Baugakór við Hörðuvallaskóla. Hann var fluttur á slysadeild. Slydda og myrkur takmarkaði útsýni ökumanns. Og kl. 13.14 lentu tvær bifreiðir utan Reykjanesbrautar við Vífilsstaðaveg eftir að önnur bifreiðin hafði rekist á hina. Mikil hálka hafði myndast á akbrautinni. Við útafaksturinn lentu bifreiðarnar á ljósastaur og annarri þeirra hvolfdi. Ökumaðurinn leitaði aðstoðar slysadeildar.

Miðvikudaginn 21. janúar kl. 19.12  varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Fjarðargötu á móts við Fjörð til norðurs. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar hafði verið að skoða símann sinn og ekki tekið eftir því þegar ökumaðurinn fyrir framan hann hægði á sér og því hafi hann einfaldlega keyrt aftan á hann. Ökumaður miðjubifreiðarinnar kenndi til eymsla í hálsi eftir óhappið og ætlaði að leita aðhlynningar á slysadeild.

Fimmtudaginn 22. janúar kl. 17.46 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á bifreiðastæði Samkaupa við Miðvang. Dimmt var og skuggsýnt. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Laugardaginn 24. janúar kl. 18.54 varð fjögurra bifreiða árekstur á Reykjanesbraut á móts við IKEA. Fyrst hafði bifreið runnið til í hálku og snúist á akbrautnni. Í framhaldinu var þremur bifreiðum ekið á hana sem og hverja á aðra. Nokkuð rok og mikil rigning og slydda var á vettvangi og vegur háll og slabb á akbrautinni. Ökumaður og farþegi  leituðu aðhlynningar á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að hafa þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Hafa ber í huga að á þessum árstíma getur sólin verið lágt á lofti og blindað ökumönnum sýn. Þá má nefna, að gefnu tilefni, að notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg.

Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut sl. laugardag.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut sl. laugardag.