Frá vettvangi á Grensásvegi.
21 Maí 2015 17:57

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. maí.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 11. maí. Kl. 14.02 var bifreið ekið suður Bústaðaveg og upp á umferðareyju gegnt Suðurhlíð þar sem hún stöðvaðist. Ökumaðurinn taldi sig hafa fengið aðsvif við aksturinn. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar. Og kl. 17.36 féll hjólreiðamaður af hjólinu á Meðalbraut og var í framhaldinu fluttur á slysadeild. Hann var undir áhrifum áfengis.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 12. maí. Kl. 9.39 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Lækjargötu við Geirsgötu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.43 varð gangandi vegfarandi, 15 ára stúlka,  fyrir bifreið í Engjaseli við Seljabraut. Hún var flutt á slysadeild.

Miðvikudaginn 13. maí kl. 15.44 var bifreið ekið aftan á aðra á Reykjanesbraut við Hamraberg. Ökumaður aftari bifreiðarinnar ók síðan á brott af vettvangi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar kenndi til eymsla í hálsi og var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. maí. Kl. 16.26 var hópbifreið ekið aftan á fólksbifreið á Hafnarfjarðarvegi við Lyngás. Ökumaður og farþegi fólksbifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.31 var bifreið ekið hratt norður Skógahlíð. Í stað þess að staðnæmast við enda götunnar var bifreiðinni ekið hiklaust áfram uns hún valt yfir á Miklubraut. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 15. maí. Kl. 0.06 varð fjögurra bifreiða árekstur á Bústaðavegi gegnt Landspítalanum í Fossvogi. Fyrst lentu tvær bifreiðir saman þegar ökumaður annarrar þeirra var ekið mót hinni, á öfugum vegarhelmingi. Skömmu síðar var bifreið ekið aftan á þá fyrrnefndu kyrrstæða og loks bættist sú fjóra við þegar henni var einnig ekið í þvöguna. Farþegi einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.29 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Grensásveg og beygt áleiðis vestur Fellsmúla, og bifreið, sem ekið var suður Grensásveg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Laugardaginn 16. maí kl. 14.57 varð reiðhjólamaður fyrir bifreið á gatnamótum Sundlaugarvegar og Laugalækjar. Bifreiðinni var ekið austur Sundlaugarveg að gatnamótum Sundlaugarvegar og Laugalækjar þar sem reiðhjólamaðurinn, sem hjólaði suður frá Laugalæk og yfir gangbraut á Sundlaugarvegi, varð fyrir henni. Reiðhjólamaðurinn meiddist, en ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er algerlega óviðeigandi við akstur  – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Grensásvegi.

Frá vettvangi á Grensásvegi.