2 Nóvember 2017 22:32

Skráð voru í málaskrá lögreglunnar á Austurlandi 60.mál dagana 29.október til 1.nóvember 2017 og voru verkefnin af ýmsum toga. Það sem hér á eftir fer er sýnishorn af þessum málum:

Bifreið valt í mikilli hálku við Efri-Stafdal á Fjarðarheiði með tveim innanborðs og fór betur en á horfðist og einungis minniháttar meiðsl eftir. Var bifreiðin á sumardekkjum og því ekki búinn undir vetraraðstæður sem þarna voru.

Þá sinnti lögregla landamæraeftirliti bæði á Egilsstaðarflugvelli í tengslum við beint flug erlendis frá og einnig við komu Norrænu til Seyðisfjarðar.

Töluverðar róstur voru víða í embættinu í tengslum við skemmtanahald um liðna helgi og þurfti aðstoð lögreglu við í nokkrum slíkum málum til að stilla til friðar. Þá stendur rannsókn yfir í tengslum við líkamsárás aðfaranótt sunnudags 29.nóvember.

Þá aðstoðaði lögregla við flutning á kjörgögnum í tengslum við alþingiskosningar þann 28.október.

Einnig var haldið uppi eftirliti með rjúpnaveiðimönnum um liðna helgi og hvetur lögregla veiðimenn til að hafa með sér skotvopnaleyfi og veiðikort er þeir ganga til rjúpna um komandi helgi. Einnig að hafa í huga að ganga vel um veiðislóð og huga að veðri svo allir komi heilir heim.

Þá hélt lögregla uppi hefðbundnu eftirliti með umferð á starfsvæði sínu og voru nokkur ökutæki stöðvuð vegna umferðarlagabrota af ýmsum toga. Mesti hraði sem kært var fyrir á þessu tímabili var 135 km. þar sem 90 km. hámarkshraði var.

Þar sem skammdegið er nú komið og dagur styttist þá biðlar lögregla til ökumanna að gæta að ljósabúnaði bifreiða sinna. Nokkuð hefur borið á því að ljós séu biluð á ökutækjum eftir bjart sumarið og því verður að kippa í liðinn hið snarasta.
Sömuleiðis vill lögregla hvetja hjólreiðamenn til að hafa ljós á hjólum sínum í umferðinni og þeir noti hjálma og endurskin. Einnig að gangandi vegfarendur muni eftir endurskini og foreldrar barna sérstaklega brýnd um að gæta að slíku hjá börnum sínum. Tökum höndum saman í þessum málum svo skammdegið myrkvist ekki meira vegna slysa af þessum sökum.

Gætum okkar svo í umferðinni og verum góð við hvort annað 🙂