21 Mars 2016 09:53

Í vikunni sem leið voru alls 21 ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur. Flestir þessara ökumanna voru mældir í akstri í Ísafjarðardjúpi, í Strandasýslu en einnig innanbæjar á Ísafirði og annars staðar í Skutulsfirði.  Lögreglan finnur fyrir meiri umferðarþunga en oft áður.  Gott tíðarfar og páskáhátíðin gæti haft þar mikið að segja.  Sá sem hraðast ók var mældur á 139 km. hraða þar sem leyfilegt er að aka á allt að 90 km. hraða.  Sá má búast við sekt að fjárhæð 90.000 kr.

Ástæða er til að minna ökumenn á að leggja ekki á gangstéttum enda eru þær ætlaðar gangandi vegfarendum. Slíkum vegfarendum er sýnd vanvirðing með slíkri lagningu, að ekki sé talað um fólk með barnavagna.  Lögreglan mun fylgja þessu vel eftir.

Skráningarmerki voru tekin af þremur ökutækjum sem ekki höfðu verið færðar til lögbundinnar skoðunar eða tryggingar fallnar úr gildi.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni. En um var að ræða árekstur sem  varð á Ísafirði.  Engin slys urðu á fólki en önnur bifreiðin var óökufær eftir áreksturinn.

Einn af þeim ökumönnum sem lögreglan kannaði í liðinni viku reyndist vera undir áhrifum áfengis. Þetta var aðfaranótt sunnudagsins 20. mars. á Ísafirði.

Lögreglan býst við töluverðri umferð til Vestfjarða næstu daga vegna páskáhátíðarinnar. Sem fyrr munu lögreglumenn vera með öflugt umferðareftirlit, athuga með ökuhraða, ástand ökumanna sem og ökutækja, allt í þágu umferðaröryggis.  Vegfarendur eru hvattir til að haga akstri í samræmi við gildandi umferðarlög.  Máltækið „Holt er heilum vagni heim að aka“ á vel við í þessu sambandi.