31 Október 2016 14:06
Nýliðin helgi er sú fyrsta þennan veturinn sem veiði á rjúpu er heimil. Eftirlit með þeim veiðum gaf ekki ástæðu til afskipta af veiðimönnum.
Í gærkveldi barst hjálparbeiðni frá einum slíkum veiðimanni á Þorskafjarðarheiði. Hann hafði villst af leið á heiðinni, var símasambandslaus, kaldur og þreyttur. Félagar mannsins voru farnir að óttast um manninn. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitarmanna í Strandasýslu. Fljótlega eftir að björgunarsveitarmenn voru komnir á svæðið kom maðurinn fram. Hann hafði villst af leið og fann ekki veginn fyrr en hann sá til ljósa frá farartækjum björgunarsveitarmanna. Ekkert amaði að manninum umfram að vera kaldur, þreyttur og villtur, eins og áður sagði.
Nokkrar hjálparbeiðnir bárust í vikunni vegna ökutækja sem festust í snjó á Dynjandis-Hrafnseyrar- og Þorskafjarðarheiði. Í öllum tilvikum var um að ræða erlenda ferðamenn á bílaleigubílum.
Í vikunni voru alls 20 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var mældur á 134 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu, en einnig í Ísafjarðardjúpi og í Bolungarvíkurgöngum.
Skráningarnúmer tekin af einu ökutæki sem var ekki lengur tryggt vegna vangoldinna iðgjalda.
Ökumenn eru hvattir til að huga að ljósabúnaði bifreiða sinna, tryggja að hjólbarðar séu í samræmi við færð og loks að afla sér upplýsinga um færð og veður áður en lagt er í langferð. Þær upplýsingar má sækja á vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is og eins með því að hringja í upplýsingasíma Vegagerðarinnar, sem er 1777.