11 Ágúst 2017 11:56

Haldið var Neistaflug í Neskaupstað um verslunarmannahelgina. Hátíðahöld fóru vel fram í alla staði og fá verkefni komu inná borð lögreglu vegna hátíðarinnar.

Brotist var inní mótorbátinn Kap VE sem var við landfestar á Eskifirði aðfararnótt laugardagsins 4. ágúst og farið þar í lyfjakassa. Það mál hefur ekki tekist að upplýsa enn sem komið er. Ef einhver hefur upplýsingar um gerendur í því máli eru þeir hvattir  að koma þeim til lögreglu.

Í umdæminu öllu voru 22 ökumenn sektaðir fyrir hraðakstur, sá sem hraðast ók var á 126 km/klst þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Einnig voru tveir ökumenn sektaðir fyrir að aka á 80 km/klst þar sem búið að var lækka hámarkshraða í 50 km/klst vegna framkvæmda.

Lögregla fjarlægði skráningarnúmer af 10 bifreiðum ýmist vegna þess að eigendur höfðu ekki fært bifreiðar til skoðunar á tilsettum tíma eða vátrygging þeirra var fallin úr gildi.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir og sektaðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu við vegamót.

Einn var vistaður í fangaklefa í vikunni vegna ölvunar og óspekta.

Eitt fíkniefnamál kom upp í vikunni og telst það mál vera upplýst.

Fimm umferðaróhöpp áttu sér stað í umdæminu en lítil sem engin slys urðu í þeim óhöppum. Mannlaus bifreið fór í höfnina við Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gær. Bifreiðin rann stjórnlaust fram af bryggjukantinum og hvarf þar sjónum manna. Kafara þurfti til að ná bifreiðinni upp auk þess sem notaður var öflugur krani við verkið. Rekja má ástæðu óhappsins til mannlegra mistaka ökumanns við frágang bifreiðarinnar.

Allnokkrir eigendur bifreiða hafa fengið miða á bifreiðar sínar með áminningu vegna lagninga í umdæminu. Allnokkuð er um það að ökumenn hugi ekki að reglum þegar þeir leggja bifreiðum sínum. Búast má við því að lögregla fari að sekta þá ökumenn sem ekki sinna þessum áminningum.