11 September 2016 14:23

Einn ökumaður var kærður í liðinni viku vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var í akstri um miðjan dag á Ísafirði, þriðjudaginn 6. september.

10 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Flestir voru þessir ökumenn að fara um Djúpveg. Sá sem hraðast ók mældist á 135 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.. Rétt er að minna á þá hættu sem af slíkum hraðaakstri skapast. Eftir því sem ekið er á meiri hraða á ökumaður ekki eins auðvelt með að bregðast við óvæntum aðstæðum. Við getum þar nefnt ef hjólbarði springur eða kind hleypur óvænt upp á veg.

Snemma dags þann 10. september varð vinnuslys við Sundabakka á Ísafirði. Þar var verið að lesta gámaflutningaskip er einn skipverjanna féll úr stiga úr allmikilli hæð. Maðurinn var með meðvitund en áverkar hans það alvarlegir að ákvað var að senda hann á sjúkrahús í Reykjavík með sjúkraflugvél. Tildrög slyssins eru, skv. venju til rannsóknar hjá lögreglunni og viðeigandi rannsóknarteymi Samgöngustofu.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku. Það varð í Bolungarvík. Tjón var minniháttar og ekki slys á fólki.