13 Febrúar 2007 12:00
Tuttugu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest voru minniháttar en í tveimur tilvikum ætlaði fólk að koma sér sjálft á slysadeild. Litlu munaði að illa færi þegar þrítug kona missti stjórn á jepplingi í austurborginni síðdegis. Bíllinn fór upp nokkrar tröppur og stöðvaðist á vegg við hliðina á inngangi í verslun. Engan sakaði en tjón ökumannsins er nokkuð.
Sjö voru teknir fyrir hraðakstur en þeir óku allir langt yfir leyfðum hámarkshraða. Grófasta brotið var framið á Vesturlandsvegi (innan borgarmarkanna) en þar mældist bíll liðlega tvítugs pilts á 135 km hraða. Ökumaðurinn gaf þá skýringu að hann hefði verið að reynsluaka bílnum. Lögreglumenn heyra margar furðulegar skýringar þegar ökufantar eru stöðvaðir. Einn sem var tekinn fyrir ofsaakstur í fyrradag kvaðst aðspurður um háttalag sitt, hafa nauðsynlega þurft að ná í ákveðna verslun fyrir lokun.
Til viðbótar stöðvaði lögreglan fimm ökumenn sem voru þegar sviptir ökuleyfi. Þá var einn tekinn fyrir ölvunarakstur og annar fyrir að aka undir áhrifum lyfja.