11 Júní 2007 12:00
429 ökumenn eiga nú sekt yfir höfði sér fyrir að aka yfir afskiptahraða á Bústaðavegi um helgina. Brot þeirra náðust á löggæslumyndavél en hinir brotlegu óku að jafnaði á liðlega 77 km hraða. Hundrað tuttugu og fimm ökumenn voru mældir á yfir 80 og tuttugu fimm á yfir 90 en sá sem hraðast ók var á 107 km hraða. Umrædd myndavél er staðsett á gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Bústaðaveg í vestur en þar er 60 km hámarkshraði.
Sérstök ástæða er til að hvetja ökumenn til að sýna varkárni þegar farið er um Bústaðaveg. Þar fjölgaði umferðaróhöppum um rúmlega helming fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Í apríllok höfðu 86 umferðaróhöpp orðið á þessum vegi en þau voru 55 sömu mánuði 2006. Ljóst er að hraðakstri er um að kenna í mörgum tilvikum. Um helgina varð enn eitt óhappið á Bústaðavegi þegar tveir bílar skullu saman en við það valt annar þeirra. Tildrög slyssins eru enn til rannsóknar en meiðsli ökumanna og farþega voru ekki talin alvarleg.
Annars staðar í umdæminu voru sextíu og fimm ökumenn teknir fyrir hraðakstur en í fáeinum tilvikum var um ofsaakstur að ræða. Fjörutíu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina.